Barack Obama er maður ársins hjá Financial Times. Nafnbótina hlýtur hann fyrir að hafa rekið framúrskarandi kosningabaráttu til forseta, sem hafi afsannað orð úrtölumanna, verið bandarísku þjóðinni hvatning og byggt aftur upp trú á styrk lýðræðisins í Bandaríkjunum.

FT segir að flestir kjósendur í Bandaríkjunum kunni að meta tal um að hafna flokkadráttum og Obama hafi talað listilega á þeim nótum. Jafnvel eftir sigurinn hafi Obama teygt sig til andstæðinganna og hvatt til þess að menn hefðu sig yfir flokkadrætti, aukaatriði og vanþroska sem hefði spillt stjórnmálum í Bandaríkjunum um langa hríð.

Áður hafði vikuritið Time valið Obama mann ársins, eins og vb.is greindi frá fyrir nokkru.