*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 1. júlí 2017 19:45

Barátta á köflum

Auglýsingabransinn er karlaheimur að mati Vigdísar Jóhannsdóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra Pipar/TBWA, en nú eru jafnmargir af hvoru kyni í framkvæmdastjórn félagsins.

Ritstjórn
Eva Björk Ægisdóttir

Vigdís Jóhannsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri og einn af eigendum auglýsingastofunnar Pipar/TBWA, segir auglýsingabransann vera karlaheim en að mikil vinna hafi þó verið unnin að undanförnu til að bæta úr því. Nú er svo komið að jafnmargar konu sitja í framkvæmdastjórn fyrirtækisins og karlar.

Vigdís Jóhannsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri og einn af eigendum auglýsingastofunnar Pipar/TBWA, hefur unnið við markaðstengd störf frá árinu 1999 og hefur horft á auglýsingabransann þróast mikið á undanförnum árum. Þá hefur hlutverk kvenna einnig tekið stakkaskiptum að hennar mati en þar liggur mikil barátta að baki.

Spurð um áhrif núverandi góðæris á fyrirtæki eins og Pipar segir Vigdís að í raun megi segja að auglýsingabransinn fylgi alltaf sveiflum í samfélaginu.

„Ástandið um þessar mundir er gott fyrir okkur að því leyti að það er uppgangur og við erum því að vinna við alls konar verkefni núna sem er ekki farið í ef það er niðursveifla. Verkefni sem eru fyrirtækjum mikilvæg en þurfa að bíða þegar þrengir að. En þessi atvinnugrein er alltaf svolítið hark, ef svo má að orði komast. Á sama tíma og maður er alltaf að vanda sig þá er maður líka að reyna að gera meira fyrir minna og fylgjast vel með því sem er í gangi hverju sinni.“

Auglýsingabransinn er karlaheimur

Vigdís hóf störf á Pipar árið 2009 en eins og alþjóð veit var efnahagshrunið þá nýgengið yfir og staðan í íslensku viðskiptalífi ekki góð.

„Ég kem inn í janúar 2009, rétt eftir að Geir blessaði Ísland og var þá örugglega fyrsta manneskjan sem fékk vinnu í markaðstengdu starfi það herrans ár. Ég hef starfað í markaðsmálum frá árinu 1999. Fyrst á markaðsdeild Íslenska útvarpsfélagsins/Norðurljósa og síðustu árin þar sem kynningarstjóri útvarpsstöðva Norðurljósa og Sirkus sem var og hét.“

Spurð um stöðu kvenna í auglýsingaheiminum þá segir Vigdís mikla grunnvinnu hafa verið unna í þeim efnum en á köflum hafi hún þó upplifað nokkra baráttu. „Þetta er karlaheimur eins og maður sér það kannski best þegar maður horfir á hópana sem standa á sviði á verðlaunaafhendingum.

Þetta er frekar lítil atvinnugrein og þar af leiðandi er þetta gjarnan lokaður hópur og það er því mikilvægt að fá þarna inn nýtt fólk en að mínu mati þá hefur það gengið mjög vel á stofunni hjá okkur. Við erum með fleiri kvenstjórnendur en karlstjórnendur og það eru jafnmargar konur sem sitja í framkvæmdastjórn og karlar.  Okkur gengur mjög vel í svona blönduðu umhverfi og að okkar mati eru það bestu verkefnin koma út úr því.

Við erum búin að vinna mjög markvisst í þessu málum og við vorum til að mynda fyrst af stofunum til að fá jafnlaunavottun en í kjölfarið hafa fleiri stofur verið að fylgja þessu eftir. Þetta er ekki bara ákall viðskiptavina heldur snýst þetta einfaldlega þá tegund af samfélagi sem við viljum búa í. Við erum komin mun lengra en margar þjóðir en þetta á náttúrlega ekki að þurfa að vera baráttumál.“

Nánar má lesa um málið í sérblaðinu Áhrifakonur. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð. Aðrir geta skráð sig í áskrift hér.