Tveir aðilar berjast nú um 50% hlut í breska sportbílaframleiðandanum Aston Martin. Félagið er að stærstum hluta í eigu kúveiska félagsins Investment Dar, sem á 64% hlut.

Aston Martin Lagonda Limited mun gefa út aukið hlutfé og eignast nýr aðili helming í félaginu við hlutafjárhækkunina. Núverandi hlutafé félagsins er metið á 250 miljónir sterlingspunda pund, um 50 milljarða króna, samkvæmt frétt Financial Times í dag.

Tilboðsgjafarnir eru indverska félagið Mahindra & Mahindra and evrópska fjárfestingafélagið InvestIndustrial. Þrátt fyrir að indverska félagið hafi, að sögn heimildarmanna FT, boðið hærra verð í hlutinn þá er málið ekki svo einfalt.

Í tilboði InvestIndustrial er boðið fram tæknisamningur við þýska bílaframleiðandann Mercedes Benz. Þróunarkostnaður á bílum Aston Martin er gríðarlega hár og gæti lækkað mikið í kjölfar slíks samstarfs. Því gæti núverandi eigendur haft mikinn hag af slíkum samningi.

Líklegt er að niðurstaða fáist um hver hneppir þennan einstaka bílaframleiðanda á næstu dögum, jafnvel um helgina.