Allt lítur út fyrir að barátta sé í vændum um yfirráð í internetfyrirtækinu Yahoo. Vogunarsjóðurinn Starboard Value hefur kallað til hluthafafundar og tilnefnt níu aðila til setu í stjórn félagsins, en alls sitja níu í stjórn fyrirtækisins.

Þetta er í samræmi við yfirlýsingu vogunarsjóðsins sem hann gerði í byrjun árs. Þá sagði hann að hann myndi berjast um yfirráð í fyrirtækinu ef stjórnarmenn myndu ekki ganga til verks og gera róttækar breytingar, þ. á m. að skipta um forstjóra fyrirtækisins, Marissa Mayer. Rekstur Yahoo hefur ekki gengið vel undanfarið og fyrirtækið er jafnvel að íhuga að selja frá sér internetdeildina, sem fyrirtækið var stofnað í kringum og var flaggskip samstæðunnar.

Starboard segir að bæði stjórnin og framkvæmdastjórn félagsins hafi ekki uppfyllt þau loforð sem hún gaf um að snúa rekstri fyrirtækisins við og að ekki sé hægt að treysta þeim fyrir yfirráðum í félaginu.

Ef Starboard nær yfirráðum þá verður líklega kosið um hvort að skipta eigi fyrirtækinu upp í smærri einingar, en fyrirtækið á verðmæta eignarhluta í Alibaba og Yahoo Japan sem hægt væri að reka sem sjálfstæðar einingar. Undanfarið hefur einnig verið rætt við mögulega kaupendur af þessum hlutum.

The Wall Street Journal greinir frá.