Það er frábær tilfinning þegar okkar málefni verða ofan á á leiðtogafundum,“ segir Gabriela Ramos, starfsmannastjóri Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Hún var stödd hér á landi í enda september í tengslum við fjölsótta alþjóðlega ráðstefnu Samkeppniseftirlitsins um samkeppnismál. Angel Gurría, framkvæmdastjóri OECD, var aðalræðumaður ráðstefnunnar og tók hann jafnframt í pallborðsumræðum með Páli Gunnari Pálssyni, forstjóra eftirlitsins, og Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um samkeppnismál.

Ekki bar mikið á Gabrielu Ramos á ráðstefnunni. Hún var þó aldrei langt frá Gurría og ævinlega með Blackberry-símann á milli handanna. Þegar hún var ekki að tala í símann las hún af skjánum eða skrifaði á lyklaborð hans. Hlutverk Ramos er mikilvægt, hún heldur utan um og skipuleggur fundarhöld Gurría áður en hann mætir á svæðið hvar sem er í heiminum.

Skáru upp herör gegn skattsvikum

Einn af mikilvægustu fundunum síðustu misserin segir hún hafa verið leiðtogafund 20 helstu iðnríkja heims sem haldinn var í Pétursborg í Rússlandi í byrjun september. Gabriela Ramos átti þar stóran hlut að máli; hún undirbjó leiðtogafundinn fyrir hönd OECD, setti tillögurnar saman sem þar voru lagðar fram, sat fundinn ásamt Gurría og tók þátt í umræðum. Samþykkt var á fundinum að skera upp herör gegn skattsvikum, leita leiða til að bæta alþjóðlegar skattareglur og binda enda á skattaundanskot alþjóðlegra stórfyrirtækja sem hafi verið staðin að því að færa hagnað milli landa.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .