ABN Amro samþykkti síðastliðið miðvikudagskvöld að opna bókhaldsbækur sínar fyrir fyrirtækjahópnum sem samanstendur af Royal Bank of Scotland (RBS), Santander og Fortis, en hópurinn hafði fyrr um daginn greint frá því að hann væri reiðubúinn að greiða 72 milljarða Bandaríkjadala fyrir hollenska bankann. Það myndi slá út tilboð breska bankans Barclays upp á 69 milljarða dollara, sem ABN hafði samþykkt fyrr í vikunni.

Í frétt Reuters fréttastofunnar í gær kemur fram að ABN hafi sett ákveðið skilyrði fyrir því að RBS - sem fer fyrir hópnum - fái aðgang að reikningum bankans. Samkvæmt skilyrðinu fengi hópurinn ekki að leggja fram formlegt yfirtökutilboð í bankann næstu tólf mánuðina nema að fengnu skriflegu leyfi frá ABN Amro. Í yfirlýsingu sem fyrirtækjahópurinn sendi frá sér í gær segir að bankarnir vonist til þess að ABN fjarlægi þetta skilyrði sem allra fyrst.

Stjórn ABN er undir miklum þrýstingi frá hluthöfum bankans um að veita hópnum aðgang að reikningum um fjárhagsstöðu ABN í kjölfar þess að bankarnir útlistuðu tilboð sitt, en það gerir ráð fyrir að hluthafar fái 39 evrur fyrir hvern hlut. Yfirtökutilboðið yrði fjármagnað að 70% hluta með peningum og afgangurinn með hlutabréfum í RBS. Heimildir herma hins vegar að stjórnendur ABN séu sérstaklega óánægðir með það að Fortis - helsti keppinautur bankans - muni hugsanlega yfirtaka ABN Amro.

Framkvæmdastjóri RBS var allt annað en sáttur með þá ákvörðun ABN að ætla selja bandaríska bankann LaSalle til Bank of America fyrir 21 milljarð dollara, eins og kveðið er á um í samkomulaginu við Barclays. Nú er aftur á móti talið að hópurinn hafi fundið upp leið til að hindra þá sölu. Hyggjast bankarnir leggja fram hærra tilboð í LaSalle, en með því skilyrði að fyrirhugað yfirtökutilboð þeirra í ABN Amro verði einnig samþykkt um leið.