Breskir bankar berjast nú hatrammlega um "pólska pundið" en það hugtak er bankamönnum tamt að nota yfir sparnað þeirra sex hundruð þúsund Pólverja sem nú búa og starfa á Bretlandseyjum. Samkvæmt útreikningum rannsóknarfyrirtækisins Centre for Economics and Business Research nema tekjur Pólverja í Bretlandi fjórum milljörðum sterlingspunda á ári hverju og er því eftir töluverða að slægjast fyrir banka sem og önnur fyrirtæki.

Tíðni þess að pólskir innflytjendur senda fé aftur til heimahaganna hefur gert að verkum að fjármálastofnanir eru farnir að bjóða upp á þjónustu sem tekur sérstaklega mið af því. Lloyds TBS mun í dag kynna nýjan reikning sem er sérstaklega ætlað að höfða til innflytjenda en þeir sem stofna reikninginn fá meðal annars sérstakt gjaldeyrisfærslukort. Með þessu vill Lloyds TBS ná sérstaklega til viðskiptavina sem eru af austur-evrópsku bergi brotnir en bankinn hefur jafnframt ráðið mikið af pólskumælandi starfsmönnum að undanförnu. Samkeppnin um slík viðskipti hefur aukist mikið að undanförnu og hafa bæði HSBC og Barcleys reynt sérstaklega að höfða til pólskra innflytjenda.

En það er ekki bara fjármálafyrirtæki sem eru farin að bregðast við vaxandi fjölda pólskra innflytjenda á Bretlandseyjum. Smásöluverslanir eru í auknum mæli farnar að koma til móts við pólska bragðlauka og pólskan smekk. Stjórnendur verslunarkeðjunnar Tesco segja að pólskar matvörur seljist eins og heitar lummur. Einnig hefur matvörurisinn Heinz ákveðið að hefja sölu á tilbúnum réttum undir hinu mjög svo lystaukandi nafni Pudliszki, og er þeim ætlað að höfða sérstaklega til Pólverja.