*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 9. maí 2019 11:21

Baráttan um Skeljung

Búist er við átökum á hluhafafundi þar sem 365 miðlar vilja endurnýja umboð stjórnar sem tók við fyrir mánuði.

Trausti Hafliðason
365 miðlar eru að mestu í eigu Ingibjargar Pálmadóttur en Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður hennar, sóttist í janúar eftir stjórnarsetu í Högum.
Aðrir ljósmyndarar

Félagið 365 miðlar óskaði eftir hluthafafundi í Skeljungi þann 23 apríl. Þá hafði félagið keypt 4,32% hlut í félaginu og þar að auki gert framvirka samninga um kaup á 5,69% til viðbótar. 365 miðlar eiga því 10,91% hlut í Skeljungi.

Töldu forsvarsmenn 365 miðla að í ljósi breytinga á hluthafahópi Skeljungs væri rétt að endurnýja umboð stjórnar. Seint á föstudagskvöldið 3. maí sendi Skeljungur frá sér tilkynningu til Kauphallarinnar um að boðað hefði verið til hluthafafundar og verður hann haldinn þann 27. maí í höfuðstöðvum félagsins við Borgartún.

Nokkur mál eru á dagskrá fundarins en mesta athyglin beinist án efa að þeim sem snúa að stjórninni enda snerist beiðni 365 miðla um að endurnýja umboð hennar, eins og áður sagði.

Áhöld um framkvæmd

Í yfirliti yfir dagskrá fundarins, sem fylgdi tilkynningunni til Kauphallarinnar, kemur fram að stjórn Skeljungs hafi óskað eftir lögfræðiáliti frá lögfræðistofunni Landslögum um framkvæmd stjórnarkjörs. Niðurstaðan er sú að fyrst verður kosið um það hvort núverandi stjórn eigi að víkja og ef það verður samþykkt þá fer fram stjórnarkjör.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins má búast við nokkrum átökum á fundinum og þá sérstaklega ljósi þess að rétt rúmur mánuður er síðan ný stjórn var kjörin með margfeldiskosningu á aðalfundi félagsins. Heimildir blaðsins herma að áhöld séu um það á meðal hagsmunaaðila í Skeljungi hvort 365 miðlar þurfi einfaldan meirihluta til að víkja núverandi stjórn eða hvort það þurfi 5/6 hluta atkvæða. Í þessum efnum er vísað til 63. og 64. greinar laga um hlutafélög.

Sérfræðingur í félagarétti sem Viðskiptablaðið ræddi við segir að hluthafalögin séu skýr. Í 64. grein komi fram að hluthafafundur geti ávallt vikið frá öllum þeim stjórnarmönnum sem hann kaus og látið stjórnarkjör fara fram að nýju. Enn fremur segist hann telja að einfaldur meirihluti dugi, þar sem ákvæðið um aukinn meirihluta eigi einungis við þegar víkja eigi einstaka stjórnarmönnum frá. Í ákvæðum um hlutföllin sé verið að vernda minnihlutann, þannig að meirihlutinn geti ekki vikið fulltrúum minnihlutans, sem hafi verið kjörnir með margfeldis- og hlutfallskosningu, á hluthafafundi með einföldum meirihluta.

Í tilkynningu Skeljungs frá því á föstudaginn kemur fram að tilnefningarnefnd Skeljungs hafi tilnefnt núverandi stjórn, líkt og Viðskiptablaðið greindi frá síðustu helgi. Ennfremur segir að tilnefningarnefndin hætti að taka við nýjum umsóknum tveimur vikum fyrir fundinn, eða mánudaginn 13. maí, og áskilur hún sér rétt til að breyta tilnefningum allt þar til tíu dögum fyrir fund.

Jóni Ásgeir var síðast teflt fram

365 miðlar eru að mestu í eigu Ingibjargar Pálmadóttur. Félagið seldi í október allan hlut sinn í Sýn fyrir tæpa tvo milljarða króna. Skömmu síðar keypti félagið hluti í Högum og í janúar sóttist Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður Ingibjargar, eftir því að verða kjörinn í stjórn Haga. Tilnefningarnefnd Haga tilnefndi hins vegar ekki Jón Ásgeir í stjórn. Eftir þetta seldu 365 miðlar hluti í Högum og keyptu í Skeljungi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: 365 miðlar Skeljungur