Þegar fyrsta tölublað Viðskiptablaðisins leit dagsins ljós vorið 1994 átti Kristján Ragnarsson að baki 22 ára feril sem formaður Landssambands íslenskra útgerðarmanna (LÍÚ). Hann var fyrir löngu orðinn þjóðþekktur í hlutverki sínu sem talsmaður sjávarútvegsins enda var fréttum varla útvarpað eða sjónvarpað nema sjávarútveg bæri á góma og Kristján legði orð í belg. Kristján var ótvíræður leiðtogi LÍÚ og fékk engin mótframboð í þau 33 ár sem hann gegndi þar forystu. Þetta kann að koma á óvart því á þessum tíma voru útgerðarmenn hvorki þekktir fyrir fylgispekt né átakafælni.

„Reyndar var það einmitt á þessum tíma sem ungur maður gengur inn á skrifstofuna til mín og spyr hvort hann megi eiga við mig orð. Ég bið hann endilega að koma inn fyrir og fá sér sæti og bera upp erindið. Þá segir hann mér að hann hafi ákveðið að bjóða sig fram í embætti formanns og spyr hvað mér finnist um þessa ákvörðun sína. Ég segi honum að þetta skyldi hann endilega gera, hvet hann áfram og fagna ákvörðuninni. Nú fengi ég loksins tækifæri til þess að kanna hvað stuðning ég ætti meðal félagsmanna, en þar sem enginn hafði nokkurn tímann boðið sig fram gegn mér áður hafði ég aldrei þurft að fylkja liði í kosningabaráttu.

Hann tekur þessu heldur þurrlega að mér fannst en við kveðjumst í ágætu vinfengi. Reyndar varð mér ekki að ósk minni því mótframboðið kom aldrei fram. Hins vegar var þessi ungi maður langt í frá af baki dottinn heldur átti eftir að hafa sig mikið frammi og ná árangri, og er enn að í dag. Þetta var Guðmundur Kristjánsson frá Rifi, núverandi forstjóri og stærsti eigandi HB Granda, mikill öðlingsmaður og farsæll. Og aldrei bar skugga á okkar samstarf eftir þetta, nema síður sé,“ segir Kristán og brosir við minningunni.

Átök og áskoranir á þorsköld

Það verður hins vegar seint sagt að formannsstóll Landssambandsins hafi verið friðarstóll þótt Kristján hafi setið í honum sjálfkjörinn. Ef eitthvað hefur framar öðru einkennt feril Kristjáns Ragnarssonar hlýtur það að vera átök.

Tóninn var sleginn strax í upphafi. Hann gekk fyrst til liðs við Landssambandið sem starfsmaður á skrifstofu samtakanna á vordögum 1958. Fáeinum vikum síðar tilkynnti Lúðvík Jósepsson sjávarútvegsráðherra að landhelgi Íslands skyldi færð út í 12 mílur. Kristján hafði sem sagt varla stigið inn fæti á skrifstofuna þegar hafið var þorskastríð. Síðan rekur hver orrustan á fætur annarri í hartnær hálfa öld, innanlands jafnt sem erlendis, þar til að hann ákveður að láta af störfum árið 2003.

Oftar en ekki var tekist á um þann gula, sem var svo efnahagslega mikilvægur að sagnfræðingar framtíðar gætu hæglega kennt tímabilið við þorsk, eða þorsköld í ljósi þorskastríða og átakanna innanlands. Kristján Ragnarsson er allan þennan átakatíma í hringiðunni miðri. Mikilvægi þessara átaka eru ótvíræð í ljósi afdrifaríkra afleiðinga og í sjálfu sér er merkileg staðreynd að Kristján hafi staðið í framlínu þeirra allra. Önnur staðreynd er líkleg til að vekja meiri furðu hjá sagnfræðingum morgundagsins, Kristján og málstaður hans fór með sigur í hverri einustu orustu.

Nánar er fjallað um málið í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði eða pantað tímaritið .