Hryðjuverkasamtökin ISIS brugðust hratt við í gær eftir að hakkarahópurinn Anonymous lýsti stríði á hendur ISIS. ISIS kallaði Anonymous ' aula ', og gaf út lista fyrirmæla fyrir meðlimi sína til að fylgja, í þeim tilgangi að bæta internetöryggi þeirra.

Hryðjuverkasamtökin ISIS eru ábyrg fyrir árásunum mannskæðu í París síðastliðinn föstudag sem og sjálfsmorðssprengjuárásum í Beirút , höfuðborg Líbanon.

Lýstu yfir stríði í kjölfar árása

Yfirlýsing Anonymous, sem er eins konar lausbyggð regnhlífarsamtök alþjóðlegra tölvuþrjóta og aktívista, var gefin út í tilefni mannskæðu Parísarárásanna svokölluðu, þar sem 129 manns hafa látist og enn liggja margir særðir. Viðskiptablaðið greindi frá þessu í gær.

Ekki eru Anonymous þó allir algjörir aular, en strax í dag lýstu þeir því yfir að þeim hefði tekist að taka niður fleiri en 5.000 Twitter-vefsíður sem bendlaðar voru við meðlimi ISIS.

Ekki má vanmeta hversu mikilvægt það er fyrir tilvist ISIS að hafa sterka nærveru ár vefnum. Helsti ráðningarmarkhópur íslamistanna herskáu er ungir sýrlenskir karlmenn, og það er auðvelt að ná til þeirra gegnum netmiðla.

Hart deilt um internetið

Þrátt fyrir að skotmörk Anonymous séu Twitter-síður meðlima ISIS má gera ráð fyrir að hakkararnir hafi stærri hluti á prjónunum. Mögulegt er að hópurinn ráðist frekar að fjárhagslegum eða skipulagslegum stoðum hryðjuverkasamtakanna, gefist þeim tækifæri til þess.

Anonymous hafa átt hlut í netárásum á Vísindakirkjuna árið 2008 , en einnig hafa meðlimirnir stutt hreyfingar á borð við Occupy Wall Street. Einnig hafa meðlimir hakkað síður Westboro Baptist Church, hómófóbískra kirkjusamtaka í Bandaríkjunum, sem og Sony.

Einnig bárust fréttir þess efnis í gær að hópurinn hefði gert árás á vefsíðu íslenska forsætisráðuneytisins, mbl.is og menn.is vegna hvalveiðistefnu Íslendinga.