Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að ef húsnæðismálafrumvörp ríkisstjórnarinnar verði ekki samþykkt séu forsendur kjarasamninga ASÍ við Samtök atvinnulífsins brostnar. Þetta kom fram í ræðu hans í tilefni 1. maí, baráttudags verkalýðsins. Gylfi sagði að barátta fyrir húsnæði á viðráðanlegum kjörum hafi verið rauður þráður í baráttu ASÍ síðastliðna öld.

Þá sagði hann að baráttumál ASÍ í dag væru svipuð og þegar hreyfingin var stofnuð fyrir hundrað árum síðan. Enn sé barist fyrir mannsæmandi launum, að hvíldartími sé virtur og að aðbúnaður og öryggi launafólks séu í lagi. Helst séu það útlendingar og ungt fólk sem verði fyrir barðinu á brotum á reglum og kjarasamningum.

„Undirboð á vinnumarkaði eru ekki bara óásættanleg heldur grafa þau undan því vinnumarkaðskerfi sem við viljum hafa á Íslandi. Við ætlumst til þess að komið sé fram af sanngirni og virðingu við fólk. Það eiga allir að fá það sem þeim ber, launamaðurinn, samfélagið og atvinnurekandinn,“ sagði Gylfi.

Þarf að ræða nýtt líkan af alvöru

Hann sagði jafnframt að mikil upplausn sé á vettvangi stjórnmálanna og að pólitísk kreppa hafi verið í landinu síðan 2008. Pólitísk ólga hafi tilhneygingu til að grafa undan efnahagslegum og félagslegum stöðugleika.

„Við þessar aðstæður er mikilvægara en nokkru sinni, að verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur á almennum og opinberum vinnumarkaði að ræði af alvöru forsendur fyrir nýju líkani við gerð kjarasamninga sem styðji við markmið okkar um efnahagslegan og félagslegan stöðugleika í landinu.

Það er einnig alveg dagljóst að það er ekki síður mikilvægt að stjórnmálaflokkarnir endurskoði og endurmeti samskiptin á hinum pólitíska vettvangi – bæði sín í milli, gagnvart kjósendum en ekki síður samskipti stjórnmálanna við vinnumarkaðinn.“