Forstjóri ABN Amro, Rijkman Groenink, á von á því að baráttunni um yfirráð í hollenska bankanum muni ljúka 19. október næstkomandi. Þetta kemur fram í bréfi sem hann skrifaði starfsmönnum bankans og byggir þá skoðun sína á því að RBS hópurinn, sem samanstendur af Royal Bank of Scotland, Fortis og Santander, hafi ákveðið að sá dagur yrði síðustu forvöð fyrir hluthafa bankans til að selja bréfin sín til hópsins.

Hinn keppinauturinn um yfirráð í ABN Amro er Barclays, sem lagði upphaflega fram yfirtökutilboð í hollenska bankann þann 23. apríl síðastliðinn sem var samþykkt. Hins vegar kom RBS-hópurinn stuttu síðar með hærra yfirtökutilboð í ABN.