Framleiðandi Barbie dúkkunnar, Mattel, segist með réttu eiga réttindi yfir yngri keppinauti Barbie, Bratz dúkkunum svonefndu og hefur fyrirtækið stefnt framleiðanda Bratz fyrir dóm vegna þessa.

Mattel segir Bratz hafa verið hannaðar af Carter Bryant meðan hann var enn starfsmaður Mattel. Fyrirtækið krefst þess að framleiðandi Bratz dúkka, MGA, hætti sölu þeirra nú þegar. MGA halda því hins vegar fram að Bryant hafi verið hættur störfum hjá Mattel þegar hann fékk hugmyndina að Bratz dúkkunum.

Í upphafi réttarhaldanna sem ahldin eru í Kaliforníu sagði lögmaður Mattel að teikningar Bryant af Bratz dúkkunum hafi verið teiknaðar á pappír merktan Mattel og að hann hafi unnið að hönnun Bratz í heilt ár meðan hann starfaði fyrir Mattel.

Mattel féllu fyrr í þessum mánuði frá kröfum sínum á hendur Bryant. MGA segir kröfur Mattel á hendur sér standa jafn ótraustum fótum og kröfurnar á hendur Bryant og segist munu sækja skaðabætur frá Mattel eftir að málinu lýkur. Sala á Barbie dúkkum hefur minnkað síðan Bratz komu á markað í júní 2001.