Spænski fótboltarisinn FC Barcelona hefur selt 10% hlut í sjónvarpsréttindum að leikjum liðsins í La Liga til næstu 25 ára. Þetta kemur fram í grein hjá The Athletic. Kaupandinn er alþjóðlega fjárfestingafyrirtækið Sixth Street Partners og mun kaupverðið fyrir tímabilið 2022-2023 hljóða upp á 267 milljónir evra, eða sem nemur 37 milljörðum króna.

Stjórn félagsins samþykkti á aðalfundi þann 16. júní að selja allt að 25% hlut í sjónvarpsréttindum til eins eða fleiri fjárfesta. Því má eiga von á því að félagið selji hinn eftirstandandi 15% hlut til annarra fjárfesta.

Stjórn Barca samþykkti einnig á aðalfundinum að selja 49,9% hlut í félagi sem heldur utan um verslunarrekstur félagsins. Félagið sagði í yfirlýsingu að það vonaðist eftir því að afla 600 milljónum evra með fyrrnefndum aðgerðum, sem hjálpi félaginu að koma jafnvægi á bókhaldið.

Barcelona þurfti fjármagn fyrir lok dags, þar sem fjárhagsár félagsins endar með deginum í dag. Fjárhagsleg frammistaða félagsins á árinu ræður því hvernig launaþak La Liga setur á félagið, sem hefur gríðarleg áhrif á samkeppnishæfni félagsins.

Sjá einnig: Stærsti samningur í sögu fótboltans

Barcelona hefur verið í miklum fjárhagsvandræðum á undanförnum árum og hlaðið upp skuldum bæði til skamms og langs tíma. Þá námu skuldir félagsins 1,2 milljörðum evra á tímabilinu 2019-2020, þar af voru skammtímaskuldirnar 730 milljónir evra. Félagið eyddi þá milljarð evra í leikmannakaup á árunum 2018-2020, mest allra félaga á sama tímabili.

Félagið hefur staðið í ströngu við endurfjármögnun skulda, en fjárfestingabankinn Goldman Sachs greiddi upp skammtímakröfurnar að mestu leyti og lánaði félaginu í staðinn 595 milljónir evra til 15 ára. Barcelona skuldar bankanum í heildina rúma 2 milljarða evra.

Barcelona hefur farið ýmsar leiðir til að afla viðbótartekna. Félagið seldi nýlega nafnið á leikvangi sínum Camp Nou til Spotify. Vakti ákvörðunin mikla athygli þar sem leikvangurinn hefur borið sama nafn frá upphafi.