Breski bankinn Barclays leitast nú eftir láni frá rússnesku bönkunum Sberbank og VTB, sem báðir eru í eigu rússneska ríkisins.

Þetta kemur fram á vef Wall Street Journal.

Í frétt blaðsins kemur fram að Barclays hafi beðið rússnesku bankana um lán en ekki liggur fyrir hvort þeir höfðu árangur sem erfiði. Blaðið hefur eftir ónefndum heimildarmanni að viðræður hefðu átt sér stað milli bankanna en ekki liggur ljóst fyrir hversu háa upphæð um var að ræða.

Þá kemur fram að Barclays vinni nú í því að auka eigið fé sitt um 6,5 milljarða punda til að mæta kröfu breskra yfirvalda um eigið fé. Leitast verður eftir fjármagninu frá einkaaðilum.

Talsmenn bankanna þriggja neituðu að tjá sig þegar eftir því var leitað.