Breski bankinn Barclays áætlar nú að segja upp allt að 2.100 manns víðs vegar um heiminn, þá helst á fjárfestingarsviði og sjóðsstýringu bankans. Talið er að um 500 manns muni missa vinnuna í Bretlandi.

Þetta kemur fram á vef BBC en að sögn heimildarmanna BBC koma uppsagnirnar nú til vegna „aðstæðna á mörkuðum nú um stundir,“ eins og það er orðað í frétt BBC en hér er um að ræða  um 7% allra starfsmanna Barclays.

Strax eftir áramót tilkynnti bankinn að um 400 manns yrði sagt upp, þá helst á tæknisviði en uppsagnirnar nú bætast við þannig að alls er þetta um 2.500 manns.

Talsmaður Barclays staðfestir í samtali við BBC að nú þegar sé byrjað að skera niður í helstu deildum bankans en vildi ekki staðfesta tölur um fjölda uppsagna.