Barclays bankinn í Bretlandi hyggst afla um 4,5 milljarða punda, um 750 milljarða króna, með útgáfu nýs hlutafjár, að því er segir í frétt WSJ. Tilgangurinn er að styrkja eiginfjárstöðuna, en Barclays hefur líkt og margir aðrir bankar þurft að niðurfæra fjárfestingar í lánasöfnum á síðustu mánuðum og það hefur veikt efnahag hans. Niðurfærsla Barclays á fyrsta fjórðungi nam 1,7 milljörðum punda.

Helmingur hlutafjárins frá Katar

Opinber fjárfestingasjóður frá Katar, Qatar Investment Authority, verður stærstur þeirra sem kemur nýr inn í hluthafahópinn og leggur til 1,76 milljarða punda. Annað opinbert eignarhaldsfélag frá Katar, Challenger, mun leggja til 533 milljónir punda. Sumitomo Mitsui Banking Corp. frá Japan fjárfestir fyrir 500 milljónir punda, China Development Bank leggur fram 136 milljónir punda og ríkisfyrirtækið Temasek Holding frá Singapúr leggur fram 200 milljónir punda. Aðrir fjárfestar hafa þegar samþykkt að fjárfesta fyrir 1,34 milljarða punda, að því er haft er eftir Barclays í frétt WSJ.

Áður hafa bresku bankarnir Royal Bank of Scotland Group, HBOS og Bradford & Bingley gefið út nýtt hlutafé í kjölfar niðurfærslna vegna lánsfjárkreppu og undirmálslána.