Barclays stendur frammi fyrir enn einum reikningnum tengdum fjármálakrísunni vestanhafs en bankinn tapaði í síðustu viku dómsmáli gegn vogunarsjóðnum Black Diamond Capital. Financial Times greindi frá þessu í byrjun vikunnar.

Sjóðurinn höfðaði mál gegn Barclays í október 2008 á þeim forsendum að bankinn hefði brotið gegn skilmálum afleiðusamnings milli fyrirtækjanna en tapaði málinu. Dómnum var áfrýjað til hæstaréttar New York borgar og var snúið við síðastliðinn fimmtudag, fimm árum eftir fyrri dómsuppkvaðningu. Barclays þarf því að skila 300 milljón Bandaríkjadollurum sem bankinn hélt upprunalega að veði frá Black Diamond.

Allar líkur eru á því að Barclays þurfi auk þess að standa skil á 300 til 400 milljónum Bandaríkjadollara í viðbót vegna vaxta og dómskostnaðar. Black Diamond Capital telur sig eiga rétt á 15,6% árlegum vöxtum á veðið samkvæmt samningi.