Barclays hækkaði í gær yfirtökutilboð sitt í ABN Amro upp í 67,5 milljarða evra og tilkynnti jafnframt að hluti þeirrar upphæðar - 24,8 milljarðar evra - yrði greiddur með peningum, sökum þess að bankinn samþykkti að selja hlutafé að virði 13,4 milljarða evra til Kínverska þróunarbankans (CDB) og Temasek Holdings, sem er fjárfestingarfélag að hluta til í eigu stjórnvalda í Singapúr. Tilboð Barclays kemur í kjölfar þess að RBS-hópurinn, sem samanstendur af Royal Bank of Scotland, Santander og Fortis, lagði fram nýtt yfirtökuboð í ABN í síðustu viku upp á 71,1 milljarða evra, en 93% þeirrar upphæðar verða greidd með peningum. Fyrra tilboð Barclays í hollenska bankann hljóðaði hins vegar upp á 64 milljarða evra og átti að öllum hluta að vera fjármagnað með nýjum hlutabréfum í breska bankanum.

Verða kínversk stjórnvöld stærstu hluthafarnir í Barclays?
Með ákvörðun sinni að leita til kínverskra fjárfesta í því augnamiði að geta lagt fram betra yfirtökutilboð í ABN munu kínversk stjórnvöld í kjölfarið gerast stærsti einstaki hluthafinn í Barclays og ráða yfir 7,7% hlutafjár bankans. Það er hins vegar undir því komið samruni Barclays og ABN gangi eftir, en ef það verður ekki munu yfirvöld í Kína og Singapúr eignast minni hlut í Barclays en ella. CDB hefur engu að síður nú þegar fjárfest í Barclays fyrir 2,2 milljarða evra á meðan Temasek samþykkti að kaupa hlutafé fyrir 1,4 milljarða evra. Þær upphæðir gætu síðan aukist um 7,4 milljarða evra (frá CDB) og 2,2 milljarða evra (frá Temasek) ef samruni Barclays og ABN Amro verður að veruleika.

Gjaldeyrisvaraforði kínverskra stjórnvalda um þessar mundir nemur í kringum 1,3 billjónum Bandaríkjadala, sem hefur hingað til að mestum hluta verið varið í að kaupa bandarísk ríkisskuldabréf. Á þeirri íhaldssömu fjárfestingarstefnu er hins vegar nú að verða breyting. Bandaríska einkafjárfestingarfélagið Blackstone, sem kínversk stjórnvöld keyptu nýverið hlut í upp á 1,5 milljarða dala, veitti CDB aðstoð við að ná samkomulagi við Barclays.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.