Breski bankinn Barclays hefur hafið viðræður við stjórnvöld á Írlandi um að víkka út starfsemi fyrirtækisins í landinu. Fylgir Barclays þar með í fótspor annara fjármálafyrirtækja sem hafa gefið það út hvar þau hyggjast setja upp höfuðstöðvar sínar innan Evrópusambandsins eftir að Bretland gengur úr sambandinu. BBC greinir frá.

Samkvæmt yfirlýsingu frá bankanum telja stjórnendur það liggja næst við að færa starfsemi bankans innan ESB til Írlands þar sem bankinn hafi verið með starfsemi í landinu í yfir 40 ár. „Þar sem óvissa ríkir með stöðu mála þurfum við að taka nauðsynleg skref til að tryggja það að viðskiptavinir okkar hafi áframhaldandi aðgang að innri markaði ESB," segir í tilkynningunni.

Barclays er nú þegar með um 100 starfsmenn á Írlandi og er eins og áður segir í viðræðum við stjórnvöld um að víkka út starfsemi sína. Sagði Frances Fitzgerald, atvinnuvegaráðherra Írlands að ákvörðun Barclays væri merki um vaxandi mikilvægi Írlands sem aðkomuleið að innri markaði Evrópusambandsins.

Það eru ekki bara fjármálafyrirtæki sem er farinn að gera áætlanir um hvernig þau ætli sér að bregðast við útgöngu Bretlands úr ESB. Fyrr í dag greindi breska flugfélagið easyJet frá því að það hygðist stofna nýtt félag innan ESB sem myndi vera með höfuðstöðvar sínar í Vín í Austurríki. Þá er Barclays ekki eina fjármálafyrirtækið sem ætla sér að stækka við starfsemi sína í Dublin. Af þeim 59 fyrirtækjum sem hafa gefið það út hvert þau munu færa starfstöðvar sínar innan ESB ætla 19 að færa starfsemi sína til Dublin eins og Viðskiptablaðið greindi frá á þriðjudag.