Barclays hefur tilkynnt að stjórnendur bankans íhugi nú sölu á nýjum hlutum í bankanum, til nýrra og núverandi hluthafa. Tilkynningin kemur í kjölfar orðróma sem kváðu á um að bankinn hygðist fá innspýtingu frá erlendum fjárfestum upp á allt að fjóra milljarða punda. BBC segir frá þessu í dag.

Í kjölfar þessara fregna hækkuðu bréf í Barclays um 13% við opnun markaða. Hins vegar enduðu bréf bankans í 3% hækkun við lokun markaða í Bretlandi.

Barclays yrði ekki fyrsti bankinn til að gefa út nýja hluti í þeim tilgangi að styrkja eiginfjárstöðu sína. Royal Bank of Scotland hefur safnað 12 milljörðum punda með nýjum útgáfum og HBOS íhugar að gefa út nýja hluti fyrir fjóra milljarða punda.

Talið er að opinberir fjárfestingasjóðir [e. sovereign wealth funds] muni koma þungir inn í hlutafjárútboðið. Núverandi hluthafar í Barclays hafa forgang á hina nýju hluti, en tveir stórir opinberir fjárfestingasjóðir eiga þegar stóran hlut í Barclays. China Development Bank keypti 3% hlut í Barclays fyrir 1,5 milljarð punda, og hinn singapúrski Temasek keypti 2,1% hlut fyrir einn milljarð punda.

Barclays hefur nú þegar afskrifað um 1,7 milljarð punda vegna eignatryggðra skuldabréfavafninga, sem er þó mun minna en helstu samkeppnisaðilar bankans. Eiginfjárþáttur A hjá bankanum er hins vegar afar lágur í samanburði við helstu keppinauta víðsvegar um Evrópu.