Hlutabréfamarkaðir hækkuðu í Evrópu í dag eftir að hafa lækkað síðustu fimm daga en mestu munaði um 73% hækkun á hlutabréfum Barclays bankans eftir að bankinn tilkynnti í dag að hagnaður bankans yrði líkast til nokkuð umfram væntingar.

Í kjölfarið hækkuðu aðrir bankar og fjármálafyrirtæki. Sem dæmi má nefna að Lloyds hækkaði um 33%, ING um 25%, Royal Bank of Scotland um 22%, BNP Paribas um 14% og Societe Generale um 10,5%.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu, hækkaði um 3% í dag.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 3,9%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 5,9% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 3,5%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 3,7% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 2,1%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 3%, í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 3,1% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 3,4%.