Breski bankinn Barclays þykir nú með líklegri kandídötum í að taka yfrir bandaríska fjárfestingabankann Lehman Brothers. Samningaviðræður um framtíð Lehman hafa haldið áfram í dag í London og New York. Bank of America þykir einnig með líklegri aðilum til að taka yfir Lehman. Wall Street Journal greinir frá þessu.

Svo virðist sem þeir fjárfestingabankar sem komið hafa að umræðum um björgunaraðgerðir til handa Lehman vilji fá sambærilega fjármögnun og JPMorgan þegar sá banki tók yfir Bear Stearns. Þá ábyrgðist Seðlabanki Bandaríkjanna yfirtökuna.

Hins vegar hefur Henry Paulson lagt áherslu á að skattgreiðendur muni ekki þurfa að borga brúsann núna.

Samkvæmt heimildum Wall Street Journal er líklegast að annað hvort Barclays eða Bank of America taki yfir þann hluta reksturs Lehman sem þykir í lagi. Hins vegar verði eitruðum, fasteignatryggðum lánum pakkað saman í 85 milljarða dollara „draslbanka”.

Þetta myndi koma í veg fyrir að lélegar eignir flæddu út á markaðinn, sem myndu hafa áhrif til rýrnunar á eignasöfn annarra banka.

Barclays hefur fengið Credit Suisse og Deutsche Bank til að veita ráðgjöf við yfirtökuna. Hins vegar horfist breski bankinn einnig í augu við að sannfæra bresk stjórnvöld um þeir hafi virkilega efni á yfirtökunni.

Skuldatryggingaálag Lehman hefur hækkað mikið undanfarna daga. Sökum þessi að viðskipti með skuldatryggingaálög fara ekki í gegnum neitt miðlægt kerfi – kauphöll af einhverju tagi, er nú rætt að að allir sem koma að samningnum sýni hvorum öðrum hver þeirra staða í skuldatryggingaálagi Lehman er, til að koma í veg fyrir uppnám á skuldatryggingamarkaðnum þegar markaðir opna á morgun þegar og ef samkomulag hefur náðst um örlög Lehman.