Barclays hefur tilkynnt að stórlega verði dregið úr gjöldum viðskiptavina sinna vegna yfirdráttar. Guardian greinir frá þessu. Talið er að þetta muni koma af stað verðstríði milli helstu viðskiptabanka Bretlands.

Samkvæmt bankanum munu viðskiptavinir aðeins þurfa að greiða átta pund frá 18.ágúst ef þeir fara yfir á reikningum sínum án heimildar. Um að ræða mikla lækkun frá núverandi gjöldum, sem geta numið allt að því 35 pundum.

Barclays mun framvegis einnig bjóða viðskiptavinum sínum nokkurs konar „stuðpúða" í stað óheimils yfirdráttar sem mun nema allt að því 1.500 pundum. Gjaldið fyrir stuðpúðann mun verða 22 pund.

Bankinn segir að endurskipulagning, aukin tæknivæðing og sjálfvirkni færslukerfis bankans geri honum kleift að lækka þessi ákveðnu gjöld.