Stjórnendur Barclays útlistuðu í gær áætlun sína vegna yfirtökunnar á ABN Amro á fundi með fjármálaráðherra Hollands, Wouter Bos, en endanlegt vald til að samþykkja samruna bankanna liggur í hans höndum. Það var einnig fastlega gert ráð fyrir því að Barclays myndi í lok dagsins í gær senda skjöl til hollenska seðlabankans og breska fjármálaeftirlitsins, þar sem óskað verður eftir því að yfirtökutilboð bankans í ABN Amro hljóti samþykki. Í kjölfarið hyggst Barclays auk þess reyna að ljúka við gerð nauðsynlegra umsókna og koma þeim í hendur í 108 samkeppniseftirlita í 53 löndum víðsvegar um heim, áður en þessi mánuður er úti.

Með þessu móti vonast Barclays eftir því að ná ákveðnu forskoti á RBS-hópinn, sem samanstendur af Royal Bank of Scotland, Fortis og Santander, en breski bankinn á í harðri samkeppni við hópinn um að ná yfirráðum í ABN Amro. Heimildarmenn Financial Times sem vel þekkja til framgangs málsins, telja að Barclays geti lagt fram formlegt tilboð í ABN í lok júlí. Ef af því verður gæti það orðið til þess að fjárfestar ákveði fremur að fallast á tilboð Barclays heldur en RBS-hópsins, enda þótt tilboð hins síðarnefnda sé hærra, eða 71 milljarðar evra samanborið við 63 milljarða evra tilboð Barclays sem ABN Amro samþykkti 23. apríl síðastliðinn.

Í frétt Financial Times kemur fram að RBS-hópurinn hafi mætt töluverðri andstöðu af hálfu stjórnenda ABN á undanförnum misserum. Helsta ástæða þess eru hugmyndir bankahópsins um að skipta ABN Amro í þrennt, en slíkt ferli myndi taka mörg ár í framkvæmd og ætti sér ekki neitt fordæmi fyrir banka að sömu stærðargráðu og ABN.

Þrír möguleikar í stöðunni
Belgíski bankinn Fortis hélt hluthafafund sinn í gær og þar kom fram í ræðu stjórnarformannsins, Maurice Lippens, að bankinn væri ekki enn búin að ákveða hvert næsta skref hans yrði varðandi slaginn um ABN. Það liggur fyrir að bankahópurinn sem Fortis er hluti af verður að taka ákvörðun fyrir næstkomandi sunnudag. Þrír möguleikar eru í stöðunni: Leggja fram annað og betra tilboð í ABN, draga sig tilboð sitt til baka, eða fresta því að taka ákvörðun, en samkvæmt hollenskum hlutabréfalögum er heimilt að biðja um lengri frest.

Hins vegar verður að teljast mjög ósennilegt að hópurinn ákveði að hætta við yfirtökuna á ABN Amro. Í ræðu sinni á hluthafafundi Fortis sagði Lippens að í ljósi þeirrar öflugu stöðu sem bankinn hefði komið sér upp á Benelux-svæðinu, þá væri það óskynsamlegt að virða að vettugi jafn gott tækifæri til þess að útvíkka starfsemi bankans enn frekar. Engu að síður lagði Lippens áherslu á það að þrátt fyrir þá staðreynd að samruni ABN Amro og Fortis yrði mjög hagstæður, þýddi það ekki að hann væri tilbúin að borga yfirverð fyrir hollenska bankann.