Breski bankinn Barclays hefur verið sektaður um 38 milljónir punda fyrir að hafa stefnt fjármunum viðskiptavina bankans í hættu. Er bankinn sagður hafa gert það með því að hafa ekki haldið fjármunum viðskiptavina nægilega aðskildum frá öðrum eignum. BBC News greinir frá málinu.

Talið er að 16,5 milljörðum í eigu viðskiptavina bankans hafi verið stefnt í hættu á árunum 2007 til 2012 þar sem verulegir veikleikar hafi verið í kerfi bankans. Er um að ræða hæstu sekt sem breska fjármálaeftirlitið hefur lagt á nokkuð fyrirtæki, en sektin samsvarar sjö og hálfum milljarði íslenskra króna.