Breski bankinn Barclays hefur verið sektaður um 470 milljónir dala, andvirði um 57 milljarða króna, vegna meintrar markaðsmisnotkunar á raforkumarkaði í Bandaríkjunum, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Orkumálastofnun bandaríska alríkisins, FERC, hefur sakað fjóra miðlara hjá Barclays um að hafa haft með ólöglegum hætti áhrif á raforkuverð í Kalíforníu og öðrum ríkjum í vesturhluta Bandaríkjanna. Markmiðið hafi verið að hagnast á afleiðusamningum tengdum raforkuverði.

Barclays ætlar ekki að sætta sig við sektarákvörðunina og í frétt FT er haft eftir talsmanni bankans að skilningur hans sé að viðskipti miðlaranna hafi verið lögmæt og innan ramma laganna. Barclays hefur mánuð til að greiða sektina en ella fer málið fyrir alríkisdómstól.