Breski bankinn Barclays hefur tekið ákvörðun um að fækka störfum um 3.700 til að draga úr rekstrarkostnaði. Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að bankinn greindi frá afkomu síðasta árs, en hann tapaði rúmum milljarði punda og er það í fyrsta skipti í meira en tvo áratugi sem bankinn skilar ársreikningi í mínus.

Árið 2011 skilaði Barclays um þriggja milljarða punda hagnaði og höfðu greiningardeildir gert ráð fyrir um 310 milljóna punda tapi árið 2012. Afkoman er því mun verri en spár höfðu gert ráð fyrir. Tapið kemur til vegna þess að bankinn afskrifaði um einn milljarð punda sem hann gerir ráð fyrir að þurfa að greiða í skaðabætur til fólks sem hann seldi með ólöglegum hætti gjaldmiðlaskiptasamninga og tryggingar.