Hlutabréf í hollenska bankanum ABN Amro héldu áfram að hækka í kjölfar fregna um að forráðamenn hans hefðu hafið viðræður við forráðamenn breska Barclays vegna yfirtökutilboðs síðarnefnda bankans. Barclays hyggst taka yfir ABN og er gert ráð fyrir að forráðamenn bankanna gefi sér þrjátíu daga til þess að ljúka samningum um yfirtökuna. Talið er að Barclays muni þurfa meira en sextíu milljarða evra fyrir hollenska bankann og að greitt verði með hlutabréfum. Ef af yfirtökunni verður er um að ræða stærsta samruna fjármálafyrirtækja í Evrópu og myndi markaðvirði sameinaðs banka nema um 125 milljörðum evra. Aðeins HSBC er meira virði í Evrópu.

Reuters-fréttastofan segist hafa heimildir fyrir því að forráðamenn ABN hafi ákveðið ganga til viðræðna við Barclays eftir að hafa borið saman tilboð frá fleiri bönkum. Bankar eins og ING, BBVA og BNP Paribas hafa sýnt áhuga að undanförnu á að kaupa ABN í heild sinni eða hluta af starfsemi bankans. Niðurstaða viðræðnanna mun liggja fyrir 26. apríl en þá á að halda hluthafafund sem er ætlað að fjalla um kröfu vogunarsjóðsins The Children?s Fund (TCI), sem á eitt prósent hlutafjár í ABN, um að bankinn verði seldur eða starfsemin brotin upp. Í kjölfar fregna um viðræður ABN og Barclays sendi TCI frá sér yfirlýsingu þar sem þeim er fagnað en hinsvegar kemur fram ósk um að þær útiloki ekki að önnur tilboð verði skoðuð.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.