Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, sagði í viðtali í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni, að afturköllun IPA-styrkjanna væru vonbrigði. Verið væri að leita leiða til að fá ESB til að standa við samningana.

Eins og kunnugt er afturkallaði framkvæmdastjórn ESB styrkina þar sem þeir eru aðeins í boði fyrir ríki sem eiga í aðildar- eða aðlögunarviðræðum við sambandið. Ísland á sem stendur ekki í formlegum viðræðum við sambandið og því voru styrkirnir afturkallaðir. Það hefur haft áhrif framgöngu ýmissa verkefna sem studd voru af styrkjunum.

"Sérstaklega í ljósi þess að skilningur manna, okkar og Utanríkisráðuneytisins, var sá í sumar að það yrði haldið áfram með þau verkefni sem voru þegar hafin," sagði Birgir. "Það voru nýjar fréttir fyrir okkur þegar í upphafi mánaðarins kom fram að framkvæmdastjórnin ætlaði líka að klippa á fjárveitingar til þeirra verkefna sem þegar voru hafin. Það var ekki í samræmi við það sem við töldum að væri sameiginlegur skilningur manna þegar að frá þessu var gengið í sumar."

Birgir segir að ýmis fyrirtæki og stofnanir hafa miðað sínar áætlanir við það að fá þessa styrki.

"Ég geri ráð fyrir því að ESB þurfi með einhverjum hætti að bæta þeim samningsrofið vegna þess að það er auðvitað í gildi samningur á milli ESB og þessara aðila og þar eru einhver ákvæði um það þegar samningur er rofinn án þess að um sé að ræða einhverja vanefndir af hálfu þiggjenda greiðslunnar,“ bætti hann við. „Nú stendur yfir lögfræðileg athugun til þess að finna hvað er best að gera. Ég held að af hálfu ESB sé alveg vilji til að standa við ákvæði samningana um þetta.“

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og nefndarmeðlimur utanríkismálanefndar, sagði í þættinum Sprengisandi, að þetta mál væri diplómatískur klaufaskapur "sem ryður í burtu sex  og hálfum milljarði alls.

„Utanríkisráðherra bæði barði og sparkaði í þessa styrki við hvert tækifæri," sagði Össur. "Nú hins vegar mun reyna á hann, því að miðað við hans eigin upplýsingar á fundi með okkur Birgi í utanríkisnefnd fyrir nokkrum dögum er það ljóst að Íslendingar eiga andmælarétt, ég lít svo á að honum beri skylda til að beita sínum þunga til að andmæla þessu með rökum."