Íslensk fiskiskip hafa fengið úthlutað aflamarki í Barentshafsþorski fyrir árið í ár. Kvóti íslensku skipanna verður 6.032 tonn af slægðum þorski, 3.712 tonn í lögsögu Noregs en 2.320 tonn í lögsögu Rússlands. Aflaverðmæti verður u.þ.b. eins milljarða króna virði miðað við stöðu gengis krónunnar í dag og afurðaverðs segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Þetta er tæplega 3% minni kvóti en í fyrra en þá fengu Íslendingar úthlutað 6.204 tonnum.

Hlutdeild Íslendinga er um 1,8% af úthlutuðum kvóta samkvæmt svokölluðum Smugusamningi frá 1999. Kvótahæsta skipið í Barentshafi í ár er Guðmundur í Nesi RE með 556 tonn, næst kemur Venus HF með 493 tonn og þá Björgvin EA með 492 tonn. Kvótahæsta útgerðin í ár er Brim með 948 tonn, þá Þormóður rammi með 729 tonn og svo Samherji með 723 tonn.