Stóri bókamarkaðurinn er að sigla inn í sína fyrstu helgi en markaðurinn opnaði í Perlunni á fimmtudag. Markaðurinn er árlegur viðburður Félags íslenskra bókaútgefenda og geysivinsæll meðal bókaorma.

Yfir 10.000 titlar eru í boði, megnið af því sem fáanlegt er af bókum á markaði hérlendis. Útgefendur hafa jafnan lækkað verð á bókunum umtalsvert og fyrir tveimur árum var sú nýbreytni tekin upp að bjóða upp á takmarkað úrval jólabóka síðustu jóla á sérstöku bókamarkaðsverði sem er að minnsta kosti helmingi lægra en auglýst útsöluverð. Samkvæmt könnunum fjölgar bókaunnendum sífellt hér á landi.

Fram kom í könnun Gallup fyrir Félag íslenskra bókaútgefenda að aldrei í þann rúma áratug sem könnunin hefur verið gerð segjast jafn margir hafa fengið bók í jólagjöf, eða 68%. Auk þess segjast rétt yfir 70% Íslendinga hafa keypt bók handa sjálfum sér, eina eða fleiri á síðasta ári.

Alls telst Félagi íslenskra bókaútgefenda til að um 2.000.000 eintaka bóka, gefinna út af íslensku útgefendum, séu seld á ári hverju hér á landi, og er það varlega áætlað. Stóri bókamarkaðurinn verður opinn daglega í Perlunni frá kl. 10 til 18 alla daga til 9. mars 2008