Sala á lúxusvörum í Brasilíu hefur aukist gríðarlega undanfarið og var aukningin 33% í fyrra þegar heildarsala lúxusvara í Brasilíu var um 12 milljarðar Bandaríkjadala. Einn af stærstu og virtustu fataframleiðendum Brasilíu er Osklen og er stofnandi og eini eigandi þess nú að leita að kaupanda að hlut í fyrirtækinu.

Risar á borð við LVMH, sem á meðal annars vörumerkið Louis Vuitton, og PPR, sem á Gucci og Yves Saint Laurent, eru að skoða kaup á fyrirtækinu. Kaupin á Osklen eru talin mjög strategísk þar sem þau veita aðgang að þeim gríðarlega stóra markaði sem Brasilía er sem og aðgang að vörumerki sem miklar vonir eru bundnar við samkvæmt Forbes.