Stórt olíumálverk eftir Karl Kvaran var selt hæstbjóðanda fyrir 3,8 milljónir króna á fyrsta listmunauppboði Gallerís Foldar á árinu. Uppboðið var haldið síðastliðið mánudagskvöld. Um hundrað listaverk voru boðin upp. Málverk eftir listamenn á borð við Kjarval, Ásgrím Jónsson og Louisu Matthíasdóttur voru til sölu. Langhæst verð fékkst fyrir verk þeirra, mest fyrir áðurnefnt olíumálverk Karls Kvaran. Eitt verka Louisu, sem er metið á 2,5 til 3 milljónir, seldist þó ekki. Alls veltu listaverkin á uppboðinu um 35 milljónum króna.

Þeir sem buðu í verk Karls Kvaran voru lengst af tveir. Báðir voru staddir erlendis og buðu símleiðis. Það hefur færst í aukana að aðilar búsettir erlendis bjóði í listaverk á uppboðum hérlendis, oftar en ekki er um Íslendinga að ræða.

Nánar er fjallað um uppboðið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.