*

föstudagur, 19. júlí 2019
Erlent 11. apríl 2017 16:20

Barclays bankinn enn í vanda

Bankastjóri Barclays gæti misst vinnuna vegna afskipta af innra eftirliti. Leiðir til nýrrar rannsóknar til viðbótar við fjölda eldri málaferla.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Breski bankinn Barclays hefur þurft að greiða töluverðar fjárhæðir í skaðabætur vegna ýmissa mála á undanförnum árum, en nú stefnir í að bankinn þurfi að sæta enn einni rannsókninni vegna inngripa bankastjórans í innra eftirlit bankans. Lækkaði gengi bréfa bankans um 0,32% í dag.

Jes Staley sem ráðinn var sem bankastjóri Barclays bankans í desember 2015 til þess að snúa við slæmri stöðu bankans er sakaður um að hafa reynt að koma upp um það hver hefði sent innra eftirliti bankans ábendingar um fyrrum samstarfsmann bankastjórans.

Verða að virða nafnleynd

Samkvæmt fjármálaeftirliti Bretlands verða fyrirtæki að virða óskir þeirra sem senda inn ábendingar ef þeir vilja ekki gefa upp nafn sitt, en eftir að hafa verið bent á að hann mætti ekki biðja um að nafnið yrði upplýst hélt hann samt uppteknum hætti.

Eftir að stjórn bankans komst að því voru bæði bresk og bandarísk fjármálaeftirlit látin vita sem og Englandsbanki og baðst Staley stjórnina afsökunar í kjölfarið.

Sameiginleg rannsókn Breta og Bandaríkjamanna

Í kjölfarið hafa breska og bandaríska fjármálaeftirlitið hafið sameiginlega rannsókn á málum bankans og bankastjórans og málefnum innra eftirlitsins þegar kemur að uppljóstrurum.

Rannsóknin gæti leitt til þess að bankinn þurfi að greiða enn eina sektina sem og að hann þurfi að breyta innri starfsemi sinni. 

Gæti misst starfið

Staley bankastjóri gæti einnig þurft að sæta sektum, en í versta falli gæti hann verið úrskurðaður óhæfur til að starfa við fjármál, sem myndi þýða að hann myndi missa starfið.

Stjórnin virðist þó enn standa með bankastjóranum og mun að sögn heimildarmanna Telegraph styðja hann til áframhaldandi starfa á aðalfundi bankans 10. maí næstkomandi.

Bankinn hefur þegar þurft að greiða miklar sektir

Bankinn, sem þurfti að greiða 290 milljónir punda sekt árið 2012 vegna þess að hann reyndi að hafa áhrif á Libor vexti, stendur nú þegar í lögsókn frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu vegna undirmálsbréfanna sem bankinn seldi fyrir fjármálahrunið.

Jafnframt bíður bankinn úrskurðar Fjármálaeftirlits Bretlands um hlutafjárútboð til fjárfesta í Mið-Austurlöndum meðan á bankahruninu stóð árið 2008, en bankinn greiddi 322 milljón punda til Qatar meðan á því stóð.

Hafði skilað meiri hagnaði en ráð var fyrir gert

Einnig stendur bankinn í lögsókn frá fjárfestinum Amanda Staveley sem hjálpaði bankanum meðan á hlutafjárútboðinu stóð en hann segir bankann skulda sér meira en 700 milljón pund fyrir vinnu sína.

Því kemur tímasetning þessa nýja máls sér illa fyrir bankann því Staley virtist vera að ná árangri í að rétta úr stöðu bankans en fyrr á árinu tilkynnti hann um þrefalt hærri hagnað á árinu 2015 vegna minni sektargreiðslna en ráð hafði verið fyrir gert.