Níu ára barn á ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu Akraneskaupstaðar vegna slyss sem það varð fyrir þegar það festi hendur sínar við að klifra yfir girðingu við Norðurálsvöllinn.

Barnið, sem var sex ára á slysdegi, varð fyrir alvarlegum áverkum við það að losa sig. Foreldrar þess kröfðust bóta úr tryggingunni og byggðu á því að frágangi girðingarinnar hefði verið ábótavant og ekki í samræmi við leiðbeiningar.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar í vátryggingamálum segir að af leiðbeiningum frá framleiðanda væri ekki hægt að fullyrða að uppsetningu hefði verið ábótavant. Nefndin sagði enn fremur að eðli málsins samkvæmt væri ekki ætlast til þess að börn eða fullorðnir myndu príla yfir girðingar enda þeim ætlað að hefta för. Þar sem ekki lá fyrir að þarna hefði verið mikil umferð eða sérstakt tilefni til að bregðast við var bótakröfunni hafnað.