Ríkissjóður greiðir 600 milljónum króna minna í barnabætur árið 2014 en árið 2013. Fjölskyldum sem fá barnabætur fækkar um nærri þrjú þúsund milli ára og dregst heildargreiðsla vaxtabóta saman um sjö hundruð milljónir króna. Þessu greinir RÚV frá.

9,5 milljarðar króna verða greiddir úr ríkissjóði í barnabætur á þessu ári, það er lækkun um 600 milljónir króna frá síðasta ári eftir að greiðslur hækkuðu um 35 prósent millil áranna 2012 og 2013.

Tæplega 54 þúsund fjölskyldur fá barnabætur í ár, en eins og áður sagði fækkar þeim úr þrjú þúsund milli ára, eða um 5,6 prósent. Þeim fjölgaði þó á síðasta ári. Í ár fá 42 þúsund fjölskyldur vaxtabætur sem er 6,6 prósent fækkun frá því í fyrra.

Á vef fjármálaráðuneytisins kemur fram að lækkun bótanna í ár skýrist einkum af hærri tekjum og raunlækkun íbúðaskulda en tekjuskerðingarhlutfallið var einnig hækkað úr 8 prósentum í 8,5 prósent.