Samtök iðnaðarins telja það ákaflega barnalegt af Samtökum
ferðaþjónustunnar, að halda því fram að Samtök upplýsingatæknifyrirtækja (SUT) hafi gleymt ferðaþjónustunni í sinni umfjöllun um þriðju stoðina í útflutningi landsmanna eins og mátti lesa út úr yfirlýsingu SAF. Samtök iðnaðarins hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem viðbrögð SAF eru gagnrýnd.

Ráðstefna Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja, Samtaka iðnaðarins og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis síðastliðinn þriðjudag hefur þannig vakið athygli. Á ráðstefnunni var ætlunin að varpa ljósi á það tækifæri sem Íslendingar hafa til að taka höndum saman og gera hátækniiðnað að þriðju stoðinni í okkar atvinnulífi.

"Hátækniiðnaður hefur vaxið hratt í löndunum í kringum okkur og er orðin
þriðja stoðin í þeirra atvinnulífi. Það hefur tekist með þeim hætti að
stjórnvöld og atvinnulíf hafa tekið höndum saman og mótað skýra stefnu
fyrir greinina og upplýsingatæknin er þar megin drifkraftur," segir í yfirlýsingu Samtaka iðnaðarins.

Á ráðstefnunni var kynnt verkefni sem nefnt er Þriðja stoðin.
"Verkefnisheitið er auðvitað ekki sett öðrum atvinnugreinum til höfuðs, ekki
ferðaþjónustu, verslun og þjónustugreinum, opinberum rekstri eða öðrum
mikilvægum greinum í okkar landi. Það er því ákaflega barnalegt af Samtökum ferðaþjónustunnar, sem halda því fram á vefsetri sínu, að SUT hafi gleymt ferðaþjónustunni í sinni umfjöllun. Ferðaþjónustan er og verður mikilvægur þáttur í okkar atvinnusköpun.

SUT vill aðeins með þessari nafngift vísa til árangurs nágrannaþjóðanna og
jafnframt vekja athygli á að nú sé lag til að taka til hendinni og gera
hátækniiðnað að þriðju stoðinni í íslensku atvinnulífi. Tækifærið er til
staðar og það ber að nýta.

Samtök ferðaþjónustunnar eiga að fagna slíku verkefni því það getur ekki
annað en bætt stöðu þeirrar greinar. Öflugur hátækniiðnaður með rætur á
Íslandi og með öfluga gjaldeyrisöflun kallar á enn öflugri ferðaþjónustu.

Á ráðstefnunni kom fram að tækifærið er til staðar og bent var á hvar
skórinn kreppir í okkar starfsskilyrðum. Á næstu tveimur mánuðum verður
unnið að tilboði til stjórnvalda um Þriðju stoðinaog það afhent á Iðnþingi
þann 18. mars næstkomandi," segir í yfirlýsingu SI.