„Ég var komin sex og hálfan mánuð  á leið þegar mér var sagt. Það var gert á þeim formerkjum að leggja ætti niður starf markaðsstjóra og hætta öllu markaðsstarfi," segir Kolbrún Silja Ásgeirsdóttir. Hún var markaðsstjóri MP banka en sagt upp ásamt átta öðrum starfsmönnum síðla í október í fyrra. Uppsögnin var liður í skipulagsbreytingum hjá MP banka.

Í tilkynningu sem MP banki sendi frá sér í tengslum við skipulagsbreytingarnar var haft eftir forstjóranum Sigurði Atla Jónssyni að markmiðið með þeim sé að skerpa enn frekar á sérhæfðri bankaþjónustu MP banka og einfalda skipulag hans.

Kolbrún var með sex mánaða uppsagnarfrest en telur að uppsögnin hafi veri ólögmæt og hún ekki fengið borgaða þá þrjá mánuði sem vantaði upp á fram að fæðingu sonarins. Kolbrún setti sig í samband við Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja og fékk þar þau svör að óheimilt sé að segja upp konum sem eru á leið í fæðingarorlof eða eru í fæðingarorlofi nema knýjandi aðstæður kalli á það hjá viðkomandi fyrirtæki sökum brýnnar hagræðingar eða vegna skipulagsbreytinga. Samtökin töldu MP banka ekki hafa uppfyllt skilyrðin og ráðlögðu Kolbrúnu að höfða skaðabótamál gegn bankanum. Og það gerði hún. Bótakrafa hennar hljóðar upp á rúmar fjórar milljónir króna. MP banki brást til varnar.

Inga Björg Hjaltadóttir, stjórnarmaður MP banka, er lögmaður bankans í máli Kolbrúnar gegn honum. Hún segir í samtali við Viðskiptablaðið ekki telja að uppsögnin hafi hvorki verið í andstöðu við lög um fæðingarorlof né jafnréttislög enda hafi starfsmanna- og markaðsmál með sanni verið sameinuð. Bæði málin eru á hendi Hildar Þórisdóttur, forstöðumanns mannauðssviðs MP banka.

Fyrirtaka var í máli Kolbrúnar gegn bankanum á þriðjudag. Þar var ákveðið að aðalmeðferð þess hefjist í janúar á næsta ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .