Bandaríska lyfjafyrirtækið Barr Pharmaceuticals hefur hækkað kauptilboð sitt í króatíska lyfjafyrirtækið Pliva í 743 króatískar kúnur á hlut úr 705 kúnum, segir í tilkynningu til kauphallanna í London og Zagreb.

Actavis hækkaði kauptilboð sitt í Pliva í gær í 735 kúnur á hlut og hefur einnig tryggt sér 20,4% eignarhlut í Pliva, en fyrr í vikunni ákvað stjórn Pliva að mæla með kauptilboði Barr. Bæði kauptilboðin eru í kringum 2,3 milljarða Bandaríkjadala, eða um 177 milljarða íslenskra króna.

Stjórn Pliva hefur verið mótfallin því að sameinast Actavis frá byrjun, en íslenska fyrirtækið knúði fram söluferli með fyrsta ófromlega kauptilboðið sínu í byrjun árs sem hljóðaði upp á 570 kúnur á hlut.

Sérfræðingar telja að Pliva eigi meiri samleið með Actavis, sérstaklega þar sem fyrirtækið er nú þegar með töluverða starfsemi í Austur-Evrópu, en Barr hefur áhuga á að ná fótfestu í Evrópu með kaupunum.

Bandaríska fyrirtækið segist geta sparað um 500 milljónir Bandaríkjadali með því að kaupa Pliva og framleiða lyf í verksmiðjum fyrirtækisins.