Bandaríska lyfjafyrirtækið Barr Pharmaceuticals hefur hækkað formlegt kauptilboð sitt í króatíska lyfjafyrirtækið Pliva, segir í tilkynningu frá fjármálaeftirliti Króatíu, sem birti tilboðið í dag.

Kauptilboðið hljóðar upp á 820 króatískar kúnur á hlut, sem nemur um 2,5 milljörðum Bandaríkjadala, eða 179 milljörðum króna. Formlegt kauptilboð Actavis hljóðar upp á 795 kúnur á hlut.

Sérfræðingar höfðu búist við að Barr myndi hækka tilboðið og reikna með að fyrirtækin séu tilbúin að borga allt að 850 kúnur fyrir hlutinn í Pliva.