Bandaríska lyfjafyrirtækið Barr Pharmaceuticals hefur lagt inn formlegt kauptilboð til króatíska fjármálaeftirlitsins um að kaupa króatíska samheitalyfjafyrirtækið Pliva, segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Actavis hefur gert óformlegt kauptilboð í Pliva og búist er við formlegu kauptilboði frá fyrirtækinu á næstu dögum. Leyfilegt er að hækka formleg kauptilboð þegar þau hafa verið skráð hjá fjármálaeftirlitinu.

Barr og Actavis hafa barist harkalega um að fá að kaupa fyrirtækið og óformleg kauptilboð fyrirtækjanna í Pliva nema um 2,4 milljörðum Bandaríkjadala, eða í kringum 170 milljarða íslenskra króna.

Sérfæðingar búast við því að fyrirtækin muni hækka tilboð sín enn frekar og Actavis reiknar með að safna um 200 milljónum evra í hlutafjárútboði til þess að fjármagna kaupin á Pliva. Fyrirtækið hefur einnig tryggt sér lánsfé til að styðja við kaupin.