*

föstudagur, 21. janúar 2022
Erlent 21. júlí 2021 12:58

Barrack handtekinn

Thomas Barrack, sem starfaði sem ráðgjafi í forsetatíð Trumps, er sakaður um að hafa beitt sér ólöglega í þágu Sameinuðu furstadæmanna.

Ritstjórn
Thomas Barrack, stofnandi og stjórnarformaður Digital Bridge.
epa

Fjárfestirinn Thomas Barrack var í gær handtekinn vegna gruns um að hann hafi unnið í þágu Sameinuðu arabísku furstadæmanna við störf hans sem óformlegur ráðgjafi í forsetatíð Donald Trump. Barrack neitar sök í málinu, að því er BBC hefur eftir talsmanni hans.

Barrack er stofnandi og stjórnarformaður Digital Bridge, sem hét áður Colony Capital. Dótturfélag þess, Digital Colony, keypti nýlega óvirka fjarskiptainnviði Sýnar og Nova. Kaupin er þó háð samþykki Samkeppniseftirlitsins, sem óskaði nýlega eftir umsögnum vegna viðskiptanna. Í samrunaskránni kemur fram að Digital Bridge, í gegnum Vantage Europe, hafi á síðasta ári eignast fyrirtækið Etix Everywhere Borealis sem starfrækir gagnaver á Blönduósi og Fitjum.

Barrack er sakaður um að hafa beitt sér ólöglega fyrir hagsmuni Sameinuðu furstadæmanna á meðan forsetaframboð Trumps stóð yfir og eftir að hann tók við embættinu. Barrack er meðal annars ákærður fyrir að hindra framgang réttvísinnar og að fara með rangfærslur í viðtali við alríkislögregluna árið 2019.

Barrack og Trump hafa átt í viðskiptum í meira en þrjá áratugi og starfaði Barrack meðal annars sem formaður nefndar um embættistöku Trumps ásamt því að taka þátt í fjáröflun fyrir kosningabaráttu hans.

Mark Lesko, starfandi aðstoðardómsmálaráðherra, sagði að meint framferði Barracks væri „ekkert minna en svik“ við bandaríska embættismenn, þar á meðal Trump.

Barrack hefur vakið athygli fyrir ýmiss konar fjárfestingar í gegnum tíðina, meðal annars að taka yfir eignarhald á Neverland-búgarði Michaels Jackson árið 2008 og kaup Colony Capital á franska knattspyrnuliðinu PSG, sem seldi það síðar til katarsks ríkisfjárfestingarfélags.