Aðalfundur Barra hf. samþykkti að auka hlutafé félagsins en skuldir félagsins hækkuðu mjög verulega á síðasta rekstrarári. Var gripið til fjárhagslegrar endurskipulagningar, skuldir afskrifaðar og breytt í hlutafé. Kaupþing banki og Byggðastofnun komu að fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins.

Hagnaður Barra hf. á rekstrarárinu 1. nóvember 2008 til 31. október 2009 nam tæplega 300 þúsund krónum. Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir félagsins 282 milljónum króna, bókfært eigið fé í árslok er  92 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall félagsins 32,6%.  Hreint veltufé frá rekstri var ríflega átta milljónir króna

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að vegna sviptinga í efnahagslífi á Íslandi síðla árs 2008 og á árinu 2009 hækkuðu skuldir félagsins mjög verulega, og voru rekstrarhorfur þess slæmar. Í lok reikningsársins var gripið til umtalsverðrar fjárhagslegrar endurskipulagningar á félaginu, einkum með þátttöku Kaupþings banka og Byggðastofnunar. Skuldabréfalán voru afskrifuð og lánum var breytt í hlutafé, en áður hafði hlutafé félagsins verið fært niður um 30% til jöfnunar á tapi. Á nýju rekstrarári, 2009-2010, er stefnt að aukningu hlutafjár, og eru rekstraráætlanir meðal annars byggðar á því að það takist.

Hlutafé aukið

Aðalfundur Barra hf var haldinn 14. janúar sl. Samþykkt var á aðalfundinum að auka hlutafé úr tæplega 82 milljónum í 112 milljónir til að styrkja lausafjárstöðu, til að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins auk þess að ljúka framkvæmdum á Valgerðarstöðum sem varða aðallega vinnuhagræði.

Ræktun fór fram á Valgerðarstöðum í Fellum og Tumastöðum í Fljótshlíð. Sáð var fræi og stungið stikklingum í rúmlega 76 þúsund bakka eða í rúmlega 3,4 milljón hólfa.

Heildarafhending rekstrarársins 2009  varð tæplega 2,5 milljón plöntur sem er minnkun um rúmlega 350 þúsund plöntur frá síðasta ári. Þrátt fyrir þessa minnkun urðu sölutekjur heldur meiri en árið áður.

Á launaskrá komu 34 starfsmenn en á þessum tíma eru 8 starfsmenn fastráðnir á Valgerðarstöðum og tveir starfa á Tumastöðum í Fljótshlíð.

Í aðalstjórn voru kjörnir Björn Ármann Ólafsson formaður, Helgi Gíslason varaformaður, Jóhann Þórhallsson ritari, Jóhann Arnarson og Pétur Grétarsson.