Bretar íhuga nú sem aldrei fyrr að taka upp evru í stað breska pundsins sem aðalgjaldmiðil.

Þetta kom fram í máli Jose Manuel Barroso, forseta framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins í viðtali við franska ríkisútvarpið í morgun en frá þessu er greint á fréttavef BBC.

Barroso sagði að Bretar væru smátt og smátt að breyta viðhorfi sínu gagnvart evrunni í ljósi þeirrar lausafjárkrísu sem nú ríður yfir alþjóðahagkerfið.

Barroso sagðist ekki vilja rjúfa trúnað við en sagði engu að síður að margir breskir stjórnmálamenn hefðu sagt við sig að „við hefðum það mun betur ef við hefðum haft evru,“ eins og hann orðaði það í viðtalinu.

Downing Stræti: Óbreytt afstaða til evrunnar

Talsmaður breska forsætisráðuneytisins sagði aðspurður að afstaða bresku ríkisstjórnarinnar væri enn óbreytt hvað varðar evruna.

Í frétt BBC kemur fram að árið 1997 setti Gordon Brown, þá fjármálaráðherra (sem BBC segir að sé andsnúinn upptöku evru á Bretlandi) fram fimm viðmiðunarstaðla sem uppfylla þyrfti áður en evra yrði tekin upp á Bretlandi.

Helsti viðmiðunarstuðullinn snýst um það hvort breska hagkerfið sé almennt í takt við evrusvæðið og hvort gert sé ráð fyrir því að svo verði um ókomin ár.

Annar stuðullinn snýr að því hvort bresk yfirvöld hafi svigrúm til að bregðast við efnahagsaðstæðum þegar þau hefðu ekki yfirráð yfir gjaldeyri landsins.

Hin þrjú atriðin snúa að því hvaða áhrif evra gæti haft á vinnumarkaðinn en Brown sagðist óttast að atvinnuleysi myndi aukast með upptöku evru. Þá hvaða áhrif evruupptaka myndi hafa á erlendar fjárfestingar á Bretlandi og þá áhrifin á fjármálamarkaði almennt.

Samkvæmt heimildarmanni BBC, sem sagður er nálægur Brown liggur ekki fyrir niðurstaða úr neinum af þessum fimm atriðum sem breska ríkisstjórnin þorir að byggja á til framtíðar.

Samkvæmt skoðanakönnunum er breskur almenningur lítið að hugsa um evruna þessar mundir. Þá hafa skoðanakannanir jafnvel gefið til kynna að þeir stjórnmálamenn sem myndu leggja áherslu á upptöku evru myndu tapa nokkuð af atkvæðum.

Barroso viðurkenndi þó í viðtalinu í morgun að „meirihluti“ Breta sé enn andsnúinn því að taka upp evru. Hann sagði þó að í ljósi fjármálakreppunnar væri upptaka evru þó líklegri en áður.

Í viðtalinu vísaði Barroso til Danmörku, sem í þjóðaratkvæðagreiðslu hafnaði upptöku evru árið 2000. Hann sagði dönsk yfirvöld nú leggja áherslu á að taka upp evru og haldin verði önnur atkvæðagreiðsla um upptöku evru.

Þá sagði Barroso að önnur ríki Evrópusambandsins myndu einnig hagnast á því ef Bretar tækju upp evru.

Barroso sagði að evran gæti orðið „akkeri stöðugleika á þessum erfiðu tímum,“ og bætti við „kostirnir liggja fyrir.“

Lord Mandelson, viðskiptaráðherra Bretlands (og fyrrverandi meðlimur framkvæmdastjórnar ESB) sagði á ráðstefnu Verkamannaflokksins um helgina að Bretar ættu að stefna að því að taka þátt í myntsvæði Evrópu með því að taka upp evruna. Hann bætti við að ekki væri nauðsynlegt að taka hana upp strax en þó mætti ekki bíða mjög lengi.

Þá sagði Mandelson að ríkisstjórn Bretlands væri „augljóslega ekki að bregðast við þessari áskorun.“

Talsmaður forsætisráðuneytisins sagðist ekki vilja gera athugasemd við orð Mandelson.

Stjórnarandstaðan gagnrýnir hvísl í eyru framkvæmdarstjórnar ESB

Breski Íhaldsflokkurinn, sem er í stjórnarandstöðu, er hins vegar á móti því að taka upp evruna.

„Það er með ólíkindum að ákveðnir breskir stjórnmálamenn skuli hvísla í eyru framkvæmdastjórnar ESB að stefnt sé að því að ganga í myntbandalagið og fara þannig á bakvið breskan almenning,“ sagði William Hague, utanríkisráðherra í skuggaráðuneyti Íhaldsflokksins og sakaði Verkamannaflokkinn fyrir að stunda leynimakk með „elítunni“ í Brussel.

Hann bætti við að nauðsynlegt væri fyrir Breta að geta ákveðið eigin stýrivexti.

„Við þurfum stýrivexti sem henta Bretlandi, ekki allri Evrópu,“ sagði Hague þegar hann var inntur álits á ummælum Barroso.

Þá ítrekaði hann að Íhaldsflokkurinn myndi ekki stefna að upptöku evru næst þegar hann kæmist til valda.

Nigel Farage, leiðtogi breska Sjálfstæðisflokksins sagði, aðspurður um ummæli Barroso að það væri breskur almenningur sem myndi segja til um upptöku evrunnar, „en ekki breskir stjórnmálamenn á bak við luktar dyr með framkvæmdastjórninni [ESB].“

Þá bætti hann við að ef Barroso vildi vita hug bresku þjóðarinnar, „ætti hann að biðja um þjóðaratkvæðagreiðslu um upptöku evru og eins Lissabon sáttmálans þannig að Bretar geti sagt honum hvar hann sé best niðurkominn.“