Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), lýsti því yfir í dag að nauðsynlegt sé að aðildarríkin grípi til samhæfðrar efnahagsinnspýtingar á vettvangi sambandsins.

Hann rökstuddi þessa skoðun með því að vísa til þess að sérstakar aðstæður kölluðu á sérstök úrræði.

Barroso lét þessi ummæli falla á blaðamannafundi með Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands.

Leiðtogarnir funda um hvaða skref beri að taka á vettvangi ESB í kjölfar þess sem var samþykkt á fundi tuttugu helstu iðnríkja heim í Washington í Bandaríkjunum um helgina.

Barroso sagði nauðsynlegt að aðildarríki ESB gripu til samhæfðra aðgerða sem meðal annars ættu að koma í veg fyrir það að staðbundinn vandi í einu ríki verði að vandamáli í öðrum ríkjum.

Hann boðaði jafnframt að ESB myndi kynna aðgerðaráætlun sína varðandi málið þann 26. nóvember.