José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir það höfuðmarkmið ESB að leysa makríldeiluna með samningum og að mögulegar refsiaðgerðir sambandsins vegna deilunnar muni alls ekki fara út fyrir ramma EES-samningsins og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eða annarra alþjóðlegra skuldbindinga ESB. Kemur þetta fram í tilkynningu forsætisráðuneytisins vegna funda Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra með Barroso og Herman van Rompuy, forseta leiðtogaráðs ESB.

Makríldeilan var meðal þess sem rætt var á fundinum og lýsti Sigmundur áhyggjum af þeirri umræðu sem hefur verið á vettvangi Evrópusambandsins um mögulegar viðskiptaþvinganir ESB gagnvart Íslandi í andstöðu við EES og Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) og benti á að slíkar aðgerðir myndu ekki stuðla að lausn deilunnar.

Sigmundur sagði fundina hafa verið mjög uppbyggilega og jákvæða. Möguleikar á sterkara samstarfi Íslands og ESB séu fjölbreyttir og að hægt sé að vinna sameiginlega að því að nýta þá óháð því hvernig sambandi Íslands og ESB er háttað að öðru leyti.