*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Innlent 23. janúar 2020 13:29

Hóteli Skúla á Ásbrú lokað

Búið er að loka hóteli sem verið hefur í eigu Skúla Mogensen á Ásbrú í Reykjanesbæ. Arion banki er aðallánveitandi félagsins.

Ingvar Haraldsson
Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri og eigandi Wow air.
Haraldur Guðjónsson

Búið er að loka Base Hotel á Ásbrú í Reykjanesbæ. Viðskiptavinum er tilkynnt þetta á heimasíðu félagsins og þeir beðnir velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda. Þeim er bent á nærliggjandi hótel og að hafa samband við sínar ferðaskrifstofur og kortafyrirtæki til að óska eftir endurgreiðslu.

Hótelið vor opnað sumarið 2016 og hefur verið rekið af félaginu TF HOT ehf. í eigu Skúla Mogensen, fyrrverandi forstjóra og eiganda Wow air, en fasteign hótelsins í eigu TF KEF ehf., sem hefur einnig verið í eigu Skúla. Morgunblaðið greindi frá því í vikunni að engar eignir hafi verið til staðar til að kyrrsetja í Títan, fjárfestingafélagi Skúla, þegar þrotabú Wow air fór fram á kyrrsetningu þar sem allar eignir félagsins voru veðsettar af Arion banka. 

Arion banki er einnig lánveitandi félaga Skúla í Base Hotel. Stundin greindi frá því að Arion banki hafi þinglýst tryggingarbréfi á fasteignir í eigu Skúla upp á 375 milljónir króna í kringum skuldabréfaútboð Wow air haustið 2018, meðal annars á TF KEF. Tryggingabréfið á TF KEF hafi verið á þriðja veðrétti á eftir tveimur tryggingabréfum frá Arion upp á 650 milljónir króna sem voru á fyrsta og öðrum veðrétti.

Eignir TF KEF námu 2,3 milljörðum króna í árslok 2018 og fólust í mestu í fasteignum á Suðurnesjum. Þá námu skuldir 1,65 milljörðum og eigið fé 673 milljónum króna. Skuldir við lánastofnanir hækkuðu úr 941 milljón í 1,4 milljarða króna milli áranna 2017 og 2018. 

Skúli auglýsti Base Hostel og aðrar fasteignir við Ásbrú til sölu fyrir þrjá milljarða króna árið 2017 en ekki varð af sölunni. Til stóð að nýta fjármagna til að fjármagna nýjar höfuðstöðvar Wow air. 

Samkvæmt rekstrarfélagsins TF HOT, sem rekur Base Hotel, var 15 milljóna króna hagnaður á árinu 2018. Tekjur félagsins 428 milljónum króna, en þar af námu tekjur af gistingu 332 milljónum króna.

Stikkorð: Skúli Mogensen Wow air TF HOT TF KEF Base Hotel