Samkeppniseftirlitið hyggst ekki aðhafast vegna kaupa Basko á helmingshlut í Eldum rétt . Basko rekur meðal annars verslanir undir merkjum 10-11, Iceland og Dunkin‘ Donuts.

Eldum rétt býður viðskiptavinum upp á matarpakka með hráefnum og uppskriftum til eldunar fyrir heimili. Markmið kaupanna er að styðja við frekari vöxt og þróun Eldum rétt með sérþekkingu á sviði smásölu sem er til staðar hjá Basko.

Samkeppniseftirlitið segir ekki einsýnt hvernig markaður sem Eldum rétt starfi á skuli skilgreindur í samkeppnisréttarlegum skilningi þar sem þjónustan sé ný á nálinni hér á landi. Engu síður sé samruni tiltölulega smárra fyrirtækja á dagvörumarkaði. Þá sé jafnframt ljóst að Basko hafi ekki með höndum starfsemi sambærilegri þeirri og Eldum rétt bjóði upp á og verði því engin samþjöppun í þeirri starfsemi. „Að svo stöddu telur Samkeppniseftirlitið því ekki tilefni til þess að taka afstöðu til endanlegrar markaðsskilgreiningar á þeim markaði sem Eldum rétt starfar á. Sá markaður sem lagður er til grundvallar í þessu máli er því markaður fyrir smásölu dagvara á höfuðborgarsvæðinu.“ segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Basko seldi í apríl hluta verslana samstæðunnar til Samkaupa. Basko er í eigu Árna Péturs Jónssonar, Station ehf., Borgarhólma ehf. og framtakssjóðsins Horns III slhf, í rekstri Landsbréfa sem er að mestu í eigu lífeyrissjóða.