Skeljungur festi kaup á Basko til að tryggja hagsmuni sína varðandi rekstur Kvikk verslana sem reknar eru við bensínstöðvar Skeljungs. Þetta kemur fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um kaup Skeljungs á Basko. Samkeppniseftirlitið samþykkti samrunann.

Í samrunaskránni segir að Basko eigi í verulegum og alvarlegum rekstrarerfiðleikum. Basko tapaði rúmum milljarði króna samkvæmt síðasta ársreikningi sem félagið skilaði.

Skeljungur greiðir 30 milljónir fyrir Basko auk yfirtöku á skuldum upp á 300 milljónir króna. Samkeppniseftirlitið veitti undanþágu frá banni við samruna og heimilaði strax samstarf félaganna þegar greint var frá kaupunum í september. Undanþágan byggði á ákvæði sem segir að sé sýnt fram á að tafir við framkvæmd samrunans geti skaðað viðkomandi fyrirtæki eða viðskiptaaðila þess og að samkeppni væri stefnt í hættu ella.

Sjá einnig: Kvikk leysir 10-11 af hólmi

Basko rekur fjórar verslanir undir vörumerkinu 10-11, verslun undir heitinu Kvosin í Aðalstræti, Reykjavík, tvær nafnlausar verslanir í Reykjanesbæ og á Akureyri (áður Iceland) og 14 verslanir undir merkjum Kvikk við bensínstöðvar Skeljungs. Þá átti Basko áður 50% hlut í Eldum rétt, en Eldum rétt var undanskilið kaupum Skeljungs á Basko.

Í ákvörðuninni segir að markaðshlutdeild Basko sé 0-5% á markaði fyrir dagvöru á Höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Akranesi og á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu.